Hvað er gert?
Athöfnin er öll tekin upp. Byrjað er um hálftíma áður en þá eru brúðgumi og svaramaður mættir og gestir að fara koma. Venjulega tekur ljósmyndari myndir milli athafnarinnar og veislu og þá gefast oft fín tækifæri á að ná stemmings-, eða listrænum vídeóskotum sem nýtast í stutta syrpu. Í veislunni eru öll atriði tekin upp og endað fljótlega eftir að kakan hefur verið skorin og fyrsti dansinn stiginn.
Eftirvinnslan felst í klippingu á milli tökuvéla, litaleiðrétting, hljóðsetning og tónlist. Afhent á USB eða linkur beint á myndefnið.
Nánar
Í athöfninni eru notaðar nokkrar vélar og þráðlaust hljóð frá presti svo að hvert orð skili sér sem best auk þess að ná öllum tónlistaratriðum. Við athöfnina eru ekki notuð ljós. Undirbúningur skiptir máli og því er veislusalurinn skoðaður til að ekkert komi á óvart með ljóð og lýsingu þar. Set yfirleitt upp netta lýsingu á púlt með spotljósum sem hafa afmarkaðan geisla og trufla ekki kertljósastemmingu. Ef ákveðið er að mynda undirbúning ykkar um morgunin þá er fylgst með hárgreiðslu og förðun brúðar og leitast við að fanga stemminguna og eftirvæntinguna hjá öllum. Einnig er litið við hjá brúðguma og svaramanni með þeirra undirbúning.
Hvað fæ ég í hendurnar:
Afhent er fullunnið efni á USB minnislykli eða vimeo link. Algengast er að skipta myndefninu niður í eftirfarandi hluta:
-Undirbúningur frá morgninum (um 10-20 mín)
-Athöfnin í heild (um 35 mín)
-Stemming úr ljósmyndatökum (5-10 mín)
-Móttakan (3-6- mín)
-Veislan í heild (um 120 mín)
-Hápunktasyrpa (3-5 mín)
Þarf video af brúðkaupinu?
Á meðan ljósmyndir fanga augnablik tímans þá fangar vídeóið tímann sjálfann. Að sjá og heyra söng eða heillaóskir og ræður frá ykkar nánustu ættingjum og kæru vinum er ómetanleg minning sem varðveitist um ókomna tíð.
Margir eru með góða síma til að kvikmynda brúðkaup?
Þó ættingjar og vinir séu með upptökumöguleika í sínum símum þá er betra að treysta á fagmann í upptökurnar. Að safna saman vídeóklippum frá hinum og þessum býður upp á misjöfn gæði og yfirleitt lélegt hljóð. Þegar gestir taka upp myndefni úr sínum sætum í athöfninni fæst einungis það fasta sjónarhorn. Veislugestir vilja auk þess njóta að vera í brúðkaupinu og skemmta sér. Stöðugt þarf að huga að því að ná öllum atriðum og skilja ekkert útundan. Að kvikmynda stóra daginn er „non-stop action“ eins og sagt er.
Verður truflun af upptökunum?
Lítið fer fyrir upptökubúnaðinum og upptökuaðferðin er þannig að hún hefur ekki áhrif á atburðarrásina. Prestum er flestum illa við að myndatökufólk fari innfyrir kórinn í athöfninni og er það alltaf virt. Næ tali af presti venjulega á æfingu meðal annars til að ræða þetta. Í sumum kirkjum er hægt að ná skotum úr þessari átt t.d. Garðakirkja á Áfltanesi og Kristskirkju (Kaþólsku kirkjunni). Svo er hægt að koma fyrir föstum smávélum sem ganga allan tíman án þess að á þær þurfi að líta á. Mætt er klukkutíma fyrir afthöfn til að gera allt klárt.